Af hverju gerir hann mér þetta? Blæs von í brjóst mitt svo ég stend með það útþanið, og brosið límt á andlitinu, bara til þess að hann hrifsi hana frá mér aftur. Jafn fljótt og hann hefur komið henni inn undir hjá mér. Jafn blítt og ég elska vonina þá hata ég hann af öllum mætti. Mig langar ekkert að hitta hann meira. Ég vil hann burt úr lífi mínu. Ég hélt að hann væri að mildast en kuldaboli minnti mig all hressilega á það að það er ennþá bara febrúar og alltof snemmt að hugleiða sumarið. En ég læt ekki segjast, ég og sennilega flestir íslendingar(nema blessuð móðir mín sem elskar veturinn...), er farin að hugsa til sumarsins á þessum vetrarins köldu dögum. Ég ætla nú samt að halda í þessa litlu von sem ég á eftir, boli nær ekki að bola henni í burt! Sumarið kemur í apríl og ekki orð um það meir! Góðar stundir.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.