Heyr mitt ljúfasta lag...

Rosalega get ég orðið leið á röddinni í sjálfri mér á annasömum degi! Sérstaklega svona í vikulok. Á brjáluðum föstudegi klukkan þrjú, stend ég mig að því að vera farin að svara með einhverri ótrúlega þreyttri og leiðinlegri rödd,að mínu mati. Rödd sem ég vil sko ekki láta bendla mér við. Reyni þá að skipta aðeins um gír. En þegar líða tekur á vikuna, leiðinlegt að segja þetta, þá er ég orðin hundleið á að heyra sjálfa mig tala, alveg sama hversu blítt ég beiti röddinni! Ég verð seint þula held ég, þó ég væri alveg til í að prófa það, en ég held bara að ég myndi ekki þora, ef mér finnst röddin orðin pirrandi get ég ekki ímyndað mér að öðrum finnist hún hljómfögur... Ég vona bara að ég hljómi ekki eins og konurnar á símanum á Landspítalanum. Þurfti að hringja þangað vegna vinnunnar um daginn og ég hef sjaldan lent í öðru eins, dónaskapur og leiðinlegheit. Rödd Landspítalans er ekki hljómfögur. Allavega ekki sú sem ég talaði við. Stundum getur maður nú dæst, og verið svolítið þreyttur, en dóni er ég ekki.

Annars er ég alltaf að lenda í einhverju skemmtilegu í vinnunni. Á laugardagsmorgni klukkan tíu svara ég í símann; Morgunblaðið, skiptiborð og fæ til baka svarið; já viltu bíða eitt augnablik, sem ég og geri. Heyri ég tíu slög í klukku sem ég get ímyndað mér að sé stór standklukka í stofunni hjá þessari sem bað mig að bíða. Svo kemur hún í símann og segir; afsakaðu en ég heyri ekkert þegar hún fer að slá! Mér fannst þetta mjög skemmtilegt, af því ég heyri aldrei svona klukkur slá lengur, amma og afi áttu svona klukku svo ég fékk alveg nostalgíu yfir þessu símtali.

Ég er að hugsa um að leggja til þagnarbindindi þegar ég kem heim. Ég yrði eflaust langfyrst til að rjúfa þaðWhistling

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Til hamingju með daginn frænka.

Linda Björk frænka (IP-tala skráð) 22.4.2007 kl. 22:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband